Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Dagur rabarbarans

Dagur rabarbarans
Þær færslur sem fara hér á eftir eru úr stuttu erindi sem haldið var á degi rabarbarans á Árbæjarsafni í dag.  Ég hef sjálf reynt allar þessar uppskriftir, nema hárlitinn.  Á honum tek ég enga ábyrgð, en er spennt að heyra af árangri ef einhver leggur í að prófa. 
 
Rabarbarinn er ótrúleg planta og þessar uppskriftir eru bara lítið sýnishorn af því sem hægt er að gera úr rabarbaranum.  Það er til dæmis á verkefnalistanum hjá mér að prófa að gera pappír úr honum, en ég hef það fyrir satt að það sé vel hægt. 

Hér eru birtar allar þær uppskriftir sem á glærunum voru til hægðarauka fyrir þá gesti sem komu og hlustuðu.  Ég vona að einhverjir leggi í að prófa uppskriftirnar og þyki þær svipað lostæti og mér.  
 
Uppskriftirnar eru: 

Úr rótinni (eða hnýðinu):
  • Hárlitur til að dekkja hár
  • Hárlitur til að lýsa hár
  • Litur fyrir ull og silki 
 
Úr blöðunum:
  • Skordýraeitur
  • Litur fyrir ull og silki og festir (e. mordant) fyrir ull og silki 
 
Úr stönglunum:
  • Líkjör
  • "Kampavín"
  • Ís
  • Bolla kökur (cup cakes)
  • Síróp (til drykkjar og út á ís)
  • Súpa 
 
Úr endanum á stönglunum (ég kalla það hæla):
 
  • Stríðsáradesert (alveg eins og niðursoðnar perur)
 
 
 

Ræktun rabarbara

 

Rabarbararót

 

  • Rabarbari er auðveldur í ræktun
  • Blanda góðum skít í moldina
  • Planta þannig að gróðrarhnúðurinn sé 5 sm fyrir neðan yfirborð
  • Fjarlægja blómstöngla strax
  • Gott að hrúga skít eða laufi yfir plöntuna á haustin
  • Skipta gömlum plöntum seint á haustin eða snemma að vori
  • Ef plantan fer skjóta upp grænum stönglum þá má stinga burtu þann hluta rótarinnar og og nýta hana í eitthvað skemmtilegt

 



Hárlitur úr rabarbara - Til að dekkja hárið

Hárlitur - til að dekkja

Þessi uppskrift er birt án allrar ábyrgðar og er meira til gamans en nokkuð annað.   

Athugið að myndin er ekki lýsandi fyrir þann lit sem þetta gefur, heldur er bara til skrauts.  

Ég hef ekki prófað þetta og get því ekkert fullyrt um árangurinn.  Það er nokkuð skemmtilegt að það skuli vera til uppskriftirsem nota rót eða hnýði rabarbarans til þess bæði að lýsa hárið og dekkja það.  En þar sem rabarbarinn er talinn virka sem lækningajurt í báðar áttir á meltingarveginn (stemmandi í litlu magni og laxerandi í miklu magni) þá er ég alveg til í að trúa því að þetta geti virkað. 

 

Til að dekkja hárið

 

3 msk maukað hnýði

1/2 lítri vatn

Leir (t.d. Kaolin eða bentonite)

 

Látið hnýðið krauma í vatninu þar til helmingur er eftir

Þykkið með leirnum

Skiptið hárinu og berið grautinn í það hreint

Látið sitja í 15 mín og athugið litinn með því að skola og þurrka

Látið sitja í 15 mín í viðbót, lengst í 1 klst, ef hárið er ekki nógu dökkt

Eftir 1 klst gefur rótin ekki meiri lit

 

Endurtakið eftir 2 daga ef liturinn þykir ekki nógu dökkur.

 

*Ég vil gjarna heyra af árangrinum ef einhver hefur þor til að prófa þetta 

 


Hárlitur úr rabarbararót - til að lýsa ljóst hár

Hár
Þessi uppskrift er gefin meira til gamans en nokkuð annað
Ég hef ekki prófað hana og gef hana án allrar ábyrgðar*
 
Til að lýsa hárið

30 g rabarbararót 
1/2 lítri eplaedik
20 g kamillublóm (e. Chamomile)
20 g morgunfrúarblóm (e. Calendula)
Safi af 2 sítrónum
50 g hunang
50 g vodki
Slatti af þykkri hárnæringu

Sjóðið rótina í edikinu í 10 mín.
Bætið blómunum út í og sjóðið undir loki í 5 mín í viðbót og látið síðan kólna
Síið og bætið sítrónusafa, hunangi og vodka út í
Þykkið með hárnæringunni
Smyrjið í hárið og látið bíða í 30 mín
Skolið með frekar köldu vatni
 
* Athugið að myndefnið gefur enga vísbendingu um litinn sem fæst með þessari blöndu
 
Líklega lýsir þetta hárið eitthvað, sérstaklega ef það er látið þorna í sól
Þetta gæti hins vegar þurrkað hárið ef hægt er að dæma af innihaldsefnunum 
Þeir sem þora að prófa þetta mega endilega láta mig vita hvernig blandan reynist 
 


Litur fyrir ull og silki úr rót rabarbarans

Litur úr rót rabarbarans

Rót/hnýði rabarbarans gefur mjög skemmtilega liti og það besta er að það þarf ekki festi fyrir garnið

Litunarlögur er búin til á eftirfarandi hátt.  Litunarlöginn má geyma í kæli og nota síðar.  
 
  • Rótin er skorin smátt
  • Látin krauma í vatni í 30 mín og kólna svo yfir nótt
  • Vökvinn síaður

Til þess að lita band eða efni úr dýraríkinu (ull og silki)
Liturinn verður svipaður og hespurnar í miðjunni á myndinni  
 
Bandið er látið í kaldan litunarlög og hitað varlega upp að suðumörkum (80 til 85 gráður á Celsíus)
Það þarf að hita ull mjög varlega til að hún þófni ekki
Best er að það taki amk eina klukkustund að ná hitastiginu í 80-85°C
Haldið þeim hita í eina klukkustund, passið að bandið sjóði ekki 
Bandið er látið kólna í litunarleginum yfir nótt
Skolið vel í vatni og athugið að þvo bandið í þvottalegi sem er með hlutlaust sýrustig (ph 7).  Uppþvottalögur er það venjulega.

 

Litnum má breyta með því að breyta sýrustigi litarins og einnig með því að nota koparlausn og járnlausn til að eftirmeðhöndla garnið

Til þess að breyta litnum yfir í gulan (vinstra megin) þá er bandið látið í vatn með ediki.  Magnið af ediki er stillt þar til réttur litur fæst. Byrjið með því að setja 1 matskeið og aukið magnið eftir því sem þurfa þykir
 
Til þess að breyta litnum í bleikari tón (hægra megin) er ammóníak eða þvottasódi settur í vatn og bandið látið liggja í þar til réttur litur fæst.  Bandið er síðan þvegið úr uppþvottalegi og skolað vel.
 
Græni liturinn (lengst til vinstri) fæst með því að yfirlita með koparsalti.  Það fæst í Heimilisiðnaðarfélaginu, eins og margt fleira til litunar. 
 

Skordýraeitur

Skordýraeitur

 

  • Sjóðið rabarbaralauf í vatni í hálftíma
  • Síið
  • Blandið sápuflögum saman við
  • Notið sem úða á blaðlýs og maðk

Eða notið litunarlög (sjá uppskrift hér á síðunni) af blöðunum og sápuafganga. 

 

  • Sjóðið litunarlöginn niður og setjið sápuafganga í hann og látið leysast upp
  • Setjið á úðabrúsa
  • Hristið brúsann og úðið á blaðlýs og maðk 

 

Ekki láta börn komast í þetta

Rabarbara festir og litur úr blöðunum

Rabarbaralitur - blöð
Blöðin er bæði hægt að nota sem festi (e. mordant) fyrir ull og silki og lita síðan með öðrum jurtum og einnig sem lit.  Liturinn sem fæst úr blöðunum eru ýmsir gulgrænir tónar sem hægt er að breyta með yfirlitun og með því að breyta sýrustigi.

Þar sem það þarf engan festi er mjög auðvelt að lita því bandið þarf enga fyrir meðhöndlun.

Laufin skorin smátt og hellt vel yfir af  vatni
Hitað að suðu (85 - 90°C)
Látið krauma í 1 klst undir loki
Látið litunarlögin kólna og síið blöðin frá
Bandið er sett vel blautt í lögin og hitað hægt að kraumi undir loki.
Látið krauma í 30-45 mín, takið bandið upp og látið það kólna 
Skolað vel í volgu vatni og litað yfir með öðrum jurtum.
Það er líka vel hægt að þurrka bandið og lita það síðar.

Sem litur er þetta notað eins, en bandið látið krauma lengur u.þ.b. 60 mín og liggja í leginum yfir nótt  áður en það er skolað.   


Rabarbara líkjör

Rabarbaralíkjör

5 dl rabarbari skorin í bita 

4 dl vodka

1 vanillustöng

1 ½  -2 dl sykur síróp (1 hluti sykur á móti 1 hluta vatns)

  • Setjið rabarbarann í krukku og hellið vodka yfir
  • Setjið lok á krukkuna og hristið
  • Látið standa í 2 vikur og bætið þá vanillustönginni út í
  • Síið eftir 4 vikur og bætið þá sírópinu út í vökvann
  • Látið standa á dimmum stað í amk. 1 mánuð

 



Rabarbara "kampavín"

Rabarbarakampavín
1 kíló rabarbari
1 sítróna skorin í sneiðar
4 lítrar kalt vatn
½  kíló sykur
1 dessertskeið af eplaediki

Skerið rabarbarann í bita og setjið allt í pott
Látið standa í sólarhring, hrærið til að leysa upp sykurinn
Síið og hellið á tveggja lítra gosflöskur
Ekki fylla flöskuna alveg, látið u.þ.b. 5 sentimetra vera eftir og lokið vel 
Látið standa í nokkra daga, eða þar til flaskan er alveg hörð viðkomu
Setjið þá flöskuna í kæli og látið kólna vel
Drykkurinn er létt kolsýrður
Það getur myndast smávegis botnfall í flöskunni, en það er auðvelt að hella varlega úr flöskunni til að forðast að fá það í glasið
Botnfallið er alveg skaðlaust og líklega bráðhollt
Drekkið innan 2 vikna

Rabarbara ís

Rabarbara ís
300 g rabarbari 
1 dl sykur
½  dl vatn- ef þarf
3 dl rjómi
2 eggjarauður
1 tsk vanillusykur
1 msk flórsykur

Skerið rabarbarann í bita og setjið í pott með sykrinum og smá vatni ef þarf
Sjóðið í nokkrar mínútur þar til rabarbarinn er mjúkur
Takið af hitanum og látið kólna
Hræðið eggjarauður saman við flórsykur og vanillusykurinn
Þeytið rjómann og veltið eggjahrærunni í hann. 
Blandið rabarbaranum varlega í rjómann.
Setjið í ísvél (og fylgið leiðbeiningum hennar) eða setjið frysti og hræðið endrum og sinnum

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband