Tillaga að matjurtagarði fyrir einn

 

Það er auðvitað mjög misjafna hvað fólk vill rækta í matjurtagarðinum sínum. Þegar ég var að byrja í matjurtaræktun þá hafði ég litla hugmynd um hvað ég ætti að setja niður og hvað mikið af hverju. Þess vegna hef tekið hér saman tillögu að matjurtagarði fyrir einn. Tillögurnar taka óneitanlega mið af mínum óskum, t.d. er ekkert hvítkál enda þykir mér það ekki gott. Hver og einn getur aðlagað þetta að sínum smekk og óskum

KLettasalat

Klettasalat - 9 plöntur

10 sm á milli 

1 flötur sem er 30 sm x 30 sm  = 0,1 m2

Sáð bein út 20. – 30. maí

Sáð 2-3 sinnum yfir sumarið

 

 

Salat, blandað

Salat - blandað - 8 plöntur

15 sm á milli

2 fletir sem eru 30 sm x 30 sm  = 0,2 m2

Sáð inni 20. – 30. apríl

Sáð bein út 20. – 30. maí

Sáð 2-3 sinnum yfir sumar

 

Spínat

Spínat - 8 plöntur

15 sm á milli

2 fletir sem eru 30 sm x 30 sm = 0,2 m2

Sáð inni 15. – 20. apríl

Sáð bein út 20. – 30. maí

Sáð 2-3 sinnum yfir sumar

 

Rauðrófur

Rauðrófur - 27 plöntur

10 sm á milli

3 fletir sem eru 30 sm x 30 sm = 0,3 m2

Sáð inni 15. – 20. apríl

Sáð bein út 10. maí – 5. júní

Má sá 2 sinnum yfir sumar

 

Gulrófur

Gulrófur - 8 plöntur

15 sm á milli

2 fletir sem eru 30 sm x 30 sm = 0,2 m2

Sáð inni 15. – 20. apríl

Plantað út í byrjun júní

 

 

IMG_1910

Gulrætur - 64 plöntur

7 sm á milli

fletir sem eru 30 sm x 30 sm = 0,4 m2

Sáð bein út 10. maí – 5. júní

Spíra á 2-3 vikum

 

 

Hnúðkál

Hnúðkál - 4 plöntur

20 sm á milli, planta stallað

2 fletir sem eru 30 sm x 30 sm = 0,2 m2

Sáð inni 10. – 20. apríl

Sáð úti í byrjun maí

 
 
 

Blómkál

Blómkál - 6 plöntur

60 sm á milli

fletir sem eru 60 sm x 60 sm = 2,2 m2

Sáð inni 10. – 20. apríl
 
 

 

 

Brokkolí

Spergilkál/Brokkoli - 10 plöntur

60 sm á milli

10 fletir sem eru 60 sm x 60 sm = 3,6 m2

Sáð inni 10. – 20. apríl

 

 

  

Grænkál

Grænkál - 2 plöntur

60 sm á milli

2 fletir sem eru 60 sm x 60 sm = 0,7 m2

Sáð inni 10. – 20. apríl

 

 

 

Hvítlaukur

Hvítlaukur - 12 plöntur

15 sm á milli

fletir sem eru 30 sm x 30 sm = 0,3 m2

Settur niður í apríl eða september

5-8 sm djúpt

 

 

Ertur

Ertur = 8 plöntur

7 og 15 sm á milli Það þarf að binda þær upp á grind eða greinar

flötur sem er 30 sm x 30 sm = 0,1 m2

Sáð inni apríl – maí

Sáð bein út í júní

 

 

Kartöflur

Kartöflur, Bláar - 10 plöntur,

30 sm á milli

10 fletir sem eru 30 sm x 30 sm = 0,9 m2

Settar niður 15. – 30. maí

 

 

 

Kartöflur, gular

Kartöflur, Gular - 10 plöntur

30 sm á milli

10 fletir sem eru 30 sm x 30 sm = 0,9 m2

Settar niður 15. – 30. maí

 

 

 

Kartöflur, möndlu

Kartöflur, Möndlu 10 plöntur,

30 sm á milli

10 fletir sem eru 30 sm x 30 sm = 0,9 m2

Settar niður 15. – 30. maí 

 

 

 

Kartöflur, rauðar

Rauðar 10 plöntur

30 sm á milli

10 fletir sem eru 30 sm x 30 sm = 0,9 m2

Settar niður 15. – 30. maí

 

 

 

Aspas

Aspas = 5 plöntur

60 sm á milli

5 fletir sem eru 60 sm x 60 sm = 1,8 m2

Plantað í júní

Tekur 3 ár að koma sér fyrir, Gott að setja þara yfir á haustin

 

 

Rabarbari

Rabarbari = 4 plöntur

60 sm á milli

4 fletir sem eru 90 sm x 90 sm = 3 m2

Plantað í júní

Tekur 3 ár að koma sér fyrir. Gott að setja skít yfir á haustin

 

 


www.smartgardener.com

Matjurtagarður

Vefsíðan www.smartgardener.com getur verið hjálpleg fyrir byrjendur (og lengra komna) við að skipuleggja matjurtagarðinn.  Síðan er bandarísk og það þarf að skrá sig inn á síðuna til að geta notað hana. Það er ekki gert ráð fyrir búsetu á Íslandi. Ég hef því sagst búa í Anchorage í Alaska, en þar eru gróðurskilyrði líkust því sem hér er

Á síðunni er hægt að teikna upp garðinn sinn, en málsetningar eru í tommum og fetum. Eitt fet er nálægt því að vera 30 sentimetrar, svo það má vel notast við það mál sem grunn. En ef menn vilja reikna nákvæmlega þá má nota 2,54 sentimetra fyrir hverja tommu og það eru 12 tommur í hverju feti

Þarna er hægt að velja sér plöntur og valið er nokkuð nákvæmt, því það er hægt að panta fræ og plöntur beint frá seljendum. Ég hef farið þá leið að velja eitthvað svipað því sem fæst hér á landi og hef skemmt mér við að búa til teikningu af matjurtagarðinum mínum

Forritið getur jafnvel gert tillögu um hversu margar plöntur rétt sé að stja niður, miðað við fjölskyldustærð og matarsmekk notandans. Það er svo hægt að laga tillögurnar til eftir þörfum


Einær arfi

Haugarfi

Einæran arfa er frekar auðvelt að meðhöndla. Þegar fyrstu blöðin láta á sér kræla er best að nota klóru til að rífa yfir yfirborð moldarinnar og losa plönturnar upp. Meðan þær eru litlar þá þolir rótarkerfi þeirra ekki raskið og þær þorna upp og drepast. Það er mjög mikilvægt að vera duglegur á vorin og snemma sumars að klóra upp ungar arfaplöntur. Það er lítil vinna og virkar mjög vel. Fyrri hluti júní mánaðar er líklega mikilvægastur hvað þetta varðar. Ef menn sinna þessu vel í upphafi þá er mun minna mál að ráð við arfann, en ef hann fær að ná sér á strik snemma sumars

Ef plönturnar ná að verða stærri þá þarf að nota handskóflu til að grafa þær upp. Varist að setja arfa sem hefur blóm eða fræ í safnhauginn. Nóg er nú samt af arfafræi, þótt að bætist ekki við safnhaugamoldina

Helstu tegundir einærs arfa eru:

ArfiHaugarfi, Stellaria media - Haugarfinn er mesta lostæti og um að gera að nota hann í salatið ef hann nær sér verulega á strik. Hann vex hratt og getur auðveldlega kæft ungar matjurtir sem eru frekar viðkvæmar til að byrja með. Besta hefndin er auðvitað að éta óvininn og ekki spillir að hann er hollur.  Haugarfinn er lækningajurt, notuð útvortis við ýmsum húðkvillum og innvortis við gigt

Hjartaarfi, Capsella bursa - Það er um að gera að passa að hún nái ekki að þroska fræ. Auðvelt að reyta hana upp.  Hún er líka lækningajurt, en kannski ekki ástæða til að setja hann í salatið. Hún þykir góð til að stöðva bæðingar bæði útvortis og innvortis

Krossfífill, Senecio vulgaris - Þessi planta skýtur oft upp kollinum, er frekað auðreitt og um að gera að vera dulegur að uppræta hana.  Hún hefur verið notuð sem lækningajurt, en er talin innihalda varhugaverð efni.  Búfénaður forðast að éta hana

 


Fjölær arfi

FífillFjölær arfi er ívið verri en sá einæri. Það er einfaldast að grafa plönturnar upp til að losna við þær. Stundum er ástæða til að nota hormónalyf til að losna við skæðustu plönturnar og vera svo duglegur að grafa upp nýja plöntur eftir því sem þær birtast. Það er best að vera sífellt á verði, arfinn mun alltaf ná að skjóta rótum einhvers staðar.

Helstu tegundir af fjölærum arfa eru:

Fífill, Taraxacum officinale - Það er auðvelt að ná honum, þarf bara að grafa upp rótina. Hann er mikil nytjajurt og er allur ætur. Úr rótunum má gera kaffilíki, úr blöðunum má gera pestó eða nota þau ung í salat. Úr blómunum má búa til svaladrykk, fíflahunang, fíflavín eða lita ullargarn ljósgult

Brenninetla, Urtica dioeca - Þeir sem eru svo heppnir að hafa brenninetlur í matjurtagarðinum ættu að passa vel uppá plö nturnar. Netla er gömul lækningajurt og allra meina bót. Hana má t.d. nota í te og súpu. Svo gefur hún ágætan lit í ull.

fyrstu12Njóli, Rumex longifolius - Njólinn er líka ætur og hann má nota til jurtalitunar, bæði blöð og rætur.  Hann er gömul lækningajurt. Þeir sem vilja losna við njóla ættu að fá sér stóra skóflu (handskófla dugir ekki til), stinga djúpt og grafa upp alla rótina 

Skriðsóley, Ranunculus repens - er alger óþverri sem nauðsynlegt er að grafa upp. Það getur tekið nokkur ár að losna við hana úr matjurtagarðinum og það getur þurft að nota hormónalyf (tvíkímblöðungaeitur) til að losna við hana

Hóffífill - Tussilagi farfara er enn verri en Skriðsóleyin því lítill rótarbútur sem brotnar af rótinni og verður eftir í moldinni verður að nýrri plöntu.  Jurtin er þó gömul lækningajurt, notuð við hósta. Samt eru efni í jurtinni sem talin eru varhugaverð og því rétt að kynna sér málið betur áður en hún er notuð í lækningaskyni

Húsapuntur, Elymus repens - er líka algjör pest sem mjög erfitt er að losna við. Ræturnar geta myndað mikla og þykka flækju sem erfitt getur verið að grafa upp. Helst er að ráðast á hann á vorin með stórri stungusóflu og grafa hann upp. Ræturnar hafa verið notaðar til matar, t.d. bætt í brauð. Jurtin er lækningajurt og þykir gagnast þvagblöðru og nýrum vel 

Alls EKKI setja arfa í safnhauginn ef hann er farinn að blómstra eða mynda fræ. Það er nánast aldrei nægilegur hiti í safnhaugnum til að drepa fræin. Það er í lagi að klippa blómin/fræin af og henda þeim og setja svo restina af jurtinni í safnhauginn, vel niður klippta að sjáfsögðu 

 


Safnhaugurinn

Safnhaugur

Endilega reyna að koma sér upp safnhaug sem fyrst

Það má kaupa sérstök ílát í garðyrkjubúðum

Eða smíða úr timbri

Eða jafnvel setja saman safnhaug úr pallettum og vírherðatrjám, eins og þessi hérna. Í hann fóru þrjár pallettur og einni tyllti ég ofan á. Palletturnar eru festar saman með tveimur vírherðatrjám í hverju horni. Einu uppi og hinu niðri.

Safnhaugamold er einhver besti jarðvegsbætir sem til er og kostar ekki neitt

Það er einfalt að hafa litla krukku, gjarna loftþétta, á eldhúsborðinu og safna ávaxta- og grænmetisafskurði, eggjaskurn, kaffikorg, pappír og eggjabökkum til að setja í safnhauginn. Góð stærð á krukku er svipuð (eða rétt aðeins stærri) en það sem venjulega er notað undir hveiti. Sú stærð er alveg mátuleg þannig að hún fyllist 1-2 svar í viku og þá er einfaldlega farið með krukkuna út í safnhauginn og hvolft úr henni


Það skiptir miklu máli að setja ekki of stóra búta í safnhauginn.  Klippið niður stórar plöntur og greinar og rífið niður pappír og pappa

Það er mjög gott að setja húsdýraáburð í safnhauginn til að koma örverunum vel af stað 

Muna að blanda vel og nota stungugaffalinn til að hræra reglulega í safnhaugnum. Það er ágætt að miða við að hræra í honum amk. einu sinni í mánuði yfir sumartímann. Á veturna lætur maður frostið sjá um safnhauginn


Uppskeran

Uppskeran

Mikill annatími í garðinum

Byrja að taka upp snemma

Taka upp lítið í einu og oft. Það getur orðið alltof mikil vinna að ætla sér að taka allt upp í einu

Það er margt sem getur alveg verið í mold þótt það sé orðið kalt

Kartöflur og gulrætur geymast vel í mold

Grænkál verður bara betra eftir frost, sama gildir um rósakál og nýpur

Um að gera að njóta


Matjurtasúpa

Matjurtasúpa
Hér er súpa sem er afbragðsgóð og bráðholl.  Ég set hana í krukku og borða hana í hádeginu.  Hún dugir mér í 4-5 daga. 
 
Skera lauk og láta krauma í smjöri þar til hann er vel brúnn. Ef hvítlaukur er notaður, þá setja hann í alveg í lokin, hann þolir ekki mikla steikningu

Bæta við 1 msk af Túrmerik kryddi, 1 tsk kóríanderfræ, ½ tsk svartur pipar og ½ tsk sinnepsfræ (fræin mulin í moretéli) og láta krauma í smjörinu smástund

Hella 1 lítra af kjúklingasoði yfir
Brytja út í þetta: 
1 brokkolí haus
1 bolla af spínati (4 frosnar kúlur, ef notað er frosið gænmeti)
1 bolla af grænkáli (4 frosnar kúlur, ef notað er frosið gænmeti
ef vill, 1 kartöflu(súpan verður þykkari)
Láta sjóða í 10 mín
Salta eftir smekk

Mauka með töfrasprota eða í blandara
Klippa steinselju yfir allt

Það má í raun nota hvaða grænmeti sem er. Prófið t.d. gulrófur, gulrætur, rauðrófur eða grasker.  Gunnurinn er hinn sami, steiktur laukur og kjúklingasoð.  Breytið kryddinu eftir smekk, en athugið að Túrmerik er afskaplega hollt.

Notið alltaf svartan pipar með Túrmerik kryddi því það inniheldur piperine sem hjálpar við upptöku curcumin, en það er hið holla efni í kryddinu.


Dagur rabarbarans

Dagur rabarbarans
Þær færslur sem fara hér á eftir eru úr stuttu erindi sem haldið var á degi rabarbarans á Árbæjarsafni í dag.  Ég hef sjálf reynt allar þessar uppskriftir, nema hárlitinn.  Á honum tek ég enga ábyrgð, en er spennt að heyra af árangri ef einhver leggur í að prófa. 
 
Rabarbarinn er ótrúleg planta og þessar uppskriftir eru bara lítið sýnishorn af því sem hægt er að gera úr rabarbaranum.  Það er til dæmis á verkefnalistanum hjá mér að prófa að gera pappír úr honum, en ég hef það fyrir satt að það sé vel hægt. 

Hér eru birtar allar þær uppskriftir sem á glærunum voru til hægðarauka fyrir þá gesti sem komu og hlustuðu.  Ég vona að einhverjir leggi í að prófa uppskriftirnar og þyki þær svipað lostæti og mér.  
 
Uppskriftirnar eru: 

Úr rótinni (eða hnýðinu):
  • Hárlitur til að dekkja hár
  • Hárlitur til að lýsa hár
  • Litur fyrir ull og silki 
 
Úr blöðunum:
  • Skordýraeitur
  • Litur fyrir ull og silki og festir (e. mordant) fyrir ull og silki 
 
Úr stönglunum:
  • Líkjör
  • "Kampavín"
  • Ís
  • Bolla kökur (cup cakes)
  • Síróp (til drykkjar og út á ís)
  • Súpa 
 
Úr endanum á stönglunum (ég kalla það hæla):
 
  • Stríðsáradesert (alveg eins og niðursoðnar perur)
 
 
 

Ræktun rabarbara

 

Rabarbararót

 

  • Rabarbari er auðveldur í ræktun
  • Blanda góðum skít í moldina
  • Planta þannig að gróðrarhnúðurinn sé 5 sm fyrir neðan yfirborð
  • Fjarlægja blómstöngla strax
  • Gott að hrúga skít eða laufi yfir plöntuna á haustin
  • Skipta gömlum plöntum seint á haustin eða snemma að vori
  • Ef plantan fer skjóta upp grænum stönglum þá má stinga burtu þann hluta rótarinnar og og nýta hana í eitthvað skemmtilegt

 



Hárlitur úr rabarbara - Til að dekkja hárið

Hárlitur - til að dekkja

Þessi uppskrift er birt án allrar ábyrgðar og er meira til gamans en nokkuð annað.   

Athugið að myndin er ekki lýsandi fyrir þann lit sem þetta gefur, heldur er bara til skrauts.  

Ég hef ekki prófað þetta og get því ekkert fullyrt um árangurinn.  Það er nokkuð skemmtilegt að það skuli vera til uppskriftirsem nota rót eða hnýði rabarbarans til þess bæði að lýsa hárið og dekkja það.  En þar sem rabarbarinn er talinn virka sem lækningajurt í báðar áttir á meltingarveginn (stemmandi í litlu magni og laxerandi í miklu magni) þá er ég alveg til í að trúa því að þetta geti virkað. 

 

Til að dekkja hárið

 

3 msk maukað hnýði

1/2 lítri vatn

Leir (t.d. Kaolin eða bentonite)

 

Látið hnýðið krauma í vatninu þar til helmingur er eftir

Þykkið með leirnum

Skiptið hárinu og berið grautinn í það hreint

Látið sitja í 15 mín og athugið litinn með því að skola og þurrka

Látið sitja í 15 mín í viðbót, lengst í 1 klst, ef hárið er ekki nógu dökkt

Eftir 1 klst gefur rótin ekki meiri lit

 

Endurtakið eftir 2 daga ef liturinn þykir ekki nógu dökkur.

 

*Ég vil gjarna heyra af árangrinum ef einhver hefur þor til að prófa þetta 

 


Hárlitur úr rabarbararót - til að lýsa ljóst hár

Hár
Þessi uppskrift er gefin meira til gamans en nokkuð annað
Ég hef ekki prófað hana og gef hana án allrar ábyrgðar*
 
Til að lýsa hárið

30 g rabarbararót 
1/2 lítri eplaedik
20 g kamillublóm (e. Chamomile)
20 g morgunfrúarblóm (e. Calendula)
Safi af 2 sítrónum
50 g hunang
50 g vodki
Slatti af þykkri hárnæringu

Sjóðið rótina í edikinu í 10 mín.
Bætið blómunum út í og sjóðið undir loki í 5 mín í viðbót og látið síðan kólna
Síið og bætið sítrónusafa, hunangi og vodka út í
Þykkið með hárnæringunni
Smyrjið í hárið og látið bíða í 30 mín
Skolið með frekar köldu vatni
 
* Athugið að myndefnið gefur enga vísbendingu um litinn sem fæst með þessari blöndu
 
Líklega lýsir þetta hárið eitthvað, sérstaklega ef það er látið þorna í sól
Þetta gæti hins vegar þurrkað hárið ef hægt er að dæma af innihaldsefnunum 
Þeir sem þora að prófa þetta mega endilega láta mig vita hvernig blandan reynist 
 


Litur fyrir ull og silki úr rót rabarbarans

Litur úr rót rabarbarans

Rót/hnýði rabarbarans gefur mjög skemmtilega liti og það besta er að það þarf ekki festi fyrir garnið

Litunarlögur er búin til á eftirfarandi hátt.  Litunarlöginn má geyma í kæli og nota síðar.  
 
  • Rótin er skorin smátt
  • Látin krauma í vatni í 30 mín og kólna svo yfir nótt
  • Vökvinn síaður

Til þess að lita band eða efni úr dýraríkinu (ull og silki)
Liturinn verður svipaður og hespurnar í miðjunni á myndinni  
 
Bandið er látið í kaldan litunarlög og hitað varlega upp að suðumörkum (80 til 85 gráður á Celsíus)
Það þarf að hita ull mjög varlega til að hún þófni ekki
Best er að það taki amk eina klukkustund að ná hitastiginu í 80-85°C
Haldið þeim hita í eina klukkustund, passið að bandið sjóði ekki 
Bandið er látið kólna í litunarleginum yfir nótt
Skolið vel í vatni og athugið að þvo bandið í þvottalegi sem er með hlutlaust sýrustig (ph 7).  Uppþvottalögur er það venjulega.

 

Litnum má breyta með því að breyta sýrustigi litarins og einnig með því að nota koparlausn og járnlausn til að eftirmeðhöndla garnið

Til þess að breyta litnum yfir í gulan (vinstra megin) þá er bandið látið í vatn með ediki.  Magnið af ediki er stillt þar til réttur litur fæst. Byrjið með því að setja 1 matskeið og aukið magnið eftir því sem þurfa þykir
 
Til þess að breyta litnum í bleikari tón (hægra megin) er ammóníak eða þvottasódi settur í vatn og bandið látið liggja í þar til réttur litur fæst.  Bandið er síðan þvegið úr uppþvottalegi og skolað vel.
 
Græni liturinn (lengst til vinstri) fæst með því að yfirlita með koparsalti.  Það fæst í Heimilisiðnaðarfélaginu, eins og margt fleira til litunar. 
 

Skordýraeitur

Skordýraeitur

 

  • Sjóðið rabarbaralauf í vatni í hálftíma
  • Síið
  • Blandið sápuflögum saman við
  • Notið sem úða á blaðlýs og maðk

Eða notið litunarlög (sjá uppskrift hér á síðunni) af blöðunum og sápuafganga. 

 

  • Sjóðið litunarlöginn niður og setjið sápuafganga í hann og látið leysast upp
  • Setjið á úðabrúsa
  • Hristið brúsann og úðið á blaðlýs og maðk 

 

Ekki láta börn komast í þetta

Rabarbara festir og litur úr blöðunum

Rabarbaralitur - blöð
Blöðin er bæði hægt að nota sem festi (e. mordant) fyrir ull og silki og lita síðan með öðrum jurtum og einnig sem lit.  Liturinn sem fæst úr blöðunum eru ýmsir gulgrænir tónar sem hægt er að breyta með yfirlitun og með því að breyta sýrustigi.

Þar sem það þarf engan festi er mjög auðvelt að lita því bandið þarf enga fyrir meðhöndlun.

Laufin skorin smátt og hellt vel yfir af  vatni
Hitað að suðu (85 - 90°C)
Látið krauma í 1 klst undir loki
Látið litunarlögin kólna og síið blöðin frá
Bandið er sett vel blautt í lögin og hitað hægt að kraumi undir loki.
Látið krauma í 30-45 mín, takið bandið upp og látið það kólna 
Skolað vel í volgu vatni og litað yfir með öðrum jurtum.
Það er líka vel hægt að þurrka bandið og lita það síðar.

Sem litur er þetta notað eins, en bandið látið krauma lengur u.þ.b. 60 mín og liggja í leginum yfir nótt  áður en það er skolað.   


Rabarbara líkjör

Rabarbaralíkjör

5 dl rabarbari skorin í bita 

4 dl vodka

1 vanillustöng

1 ½  -2 dl sykur síróp (1 hluti sykur á móti 1 hluta vatns)

  • Setjið rabarbarann í krukku og hellið vodka yfir
  • Setjið lok á krukkuna og hristið
  • Látið standa í 2 vikur og bætið þá vanillustönginni út í
  • Síið eftir 4 vikur og bætið þá sírópinu út í vökvann
  • Látið standa á dimmum stað í amk. 1 mánuð

 



« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband