Hvernig er best að sá?
25.4.2013 | 17:09
Það tekur 6-8 vikur að forrækta grænmeti þannig að það sé tilbúið til útplöntunar
Ef ætlunin er að planta út um mánaðamótin maí/júní þá þarf að sá í 2. til 3. viku apríl mánaðar.
Það má alveg sá seinna en það, það eina sem gerist er að uppskeran verður eilítið seinni á ferðinni, en oft ná plönturnar samt mjög góðum vexti þótt þær fari seinna út. Enda er þá veður orðið hlýtt og skilyrði hagstæð
Það er ekki endilega gott að byrja fyrr því þá er hætta á að fræplönturnar fái ekki nægilegt ljós og verði langar og renglulegar
Hiti til að spíra: 18-20°C
Hiti fyrir fræplöntur í vexti: 10-17°C.
Það er ekkert sérstaklega erfitt að fá fræ til að spíra, kúnstin er að fá plönturnar til að vaxa vel. Þær þurfa mikið ljós og mun kaldari aðstæður en við höfum oft í húsunum okkar. Ef þær vaxa upp við of mikinn hita eða of lítið ljós þá verða þær renglulegar og veikburða
Lesið leiðbeiningar á fræpokum því plöntur eru aðeins mismunandi. Þumalputtareglan er samt að sá fræjum 3 x dýpra en þau eru stór. Smæstu fræin eru sett beint ofan á moldina og þrýst vel niður. Það hefur gefist mér vel að setja þunnt lag af vikri ofan á moldina þegar ég er búin að sá. Það þarf að vökva eftir sáningu og lang best að gera það neðan frá
Það þarf ekki að kaupa dýra potta til að sá í. Það má nota ýmislegt, t.d. getur verið mjög fínt að sá í ílát undan salati og jarðarberjum. Þau eru eins og lítil gróðurhús.
Eins er hægt að sá rótargrænmeti í klósettrúllur sem er síðan plantað beint út. Þannig er forðast að trufla viðkvæmar rætur.
Garðyrkjufélagið selur fallega Pottara sem eru handhægir til að búa til pott úr dagblöðum. Pottararnir eru íslensk handsmíði og mikið prýði af þeim auk þess að vera gagnlegir.
Munið að merkja vel allt sem sáð er.
Gott er að setja bæði nafn á plöntunni, fjölda fræja sem sáð er auk dagsetningar.
Það er reyndar mjög gott að koma sér upp sérstakri dagbók það sem allt sem viðkemur garðinum er skrifað niður. Þannig er hægt að halda utan um hvað gert er og læra af reynslunni.
Þar er gott að skrifa niður hugmyndir að nýjungum sem mann langar að prófa og reynslu sem maður hefur öðlast. Dagbókin verður svo ómissandi við skipulagningu matjurtagarðsins næsta ár.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.